Frá því fyrir aldamót hefur Sandtak unnið við sandblástur og tæringarvarnir fyrir álverið í Straumsvík. Þetta hafa verið mjög fjölbreytt verkefni allt frá ryðhreinsun á ýmsum járnhlutum sem notaðir eru í rekstri verksmiðjunnar og upp í mjög stór stálmannvirki eins og stóru rauðu og hvítu súrálstankana og einnig mjög flókin mannvirki oft við þröngar aðstæður. Þegar Verkvík og Sandtak sameinuðust fórum við að bjóða álverinu upp á fjölbreyttari þjónustu og hefur sú vinna verið mjög mikil um árabil. Þar ber helst að nefna að frá árinu 2007 höfum við séð um allt viðhald á steyptum gólfum í kerskálunum ásamt því að skipta út gólfeiningum. Við höfum séð um mikið af uppsteypuverkefnum, breytingum og nýframkvæmdum ásamt því að sinna ýmsu viðhaldi fyrir rekstur verksmiðjunnar. Verkvík-Sandtak er viðurkenndur verktaki hjá Rio Tinto Alcan með þjónustusamning við verksmiðjuna.
Þjónusta við álver Norðuráls á Grundartanga hefur farið vaxandi undanfarin ár og þá aðallega í sandblæstri og tæringarvörnum. Einnig höfum við tekið að okkur stór verkefni fyrir Járnblendið á Grundartanga.